miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Hugarflug

Allt í einu fékk ég löngun til að skrifa eitthvað hérna inn. Ég veit ekki hvort nokkur maður skoðar þetta en þá skrifa ég bara þessa vitleysu fyrir mig.

Núna eru mikil tímamót hjá mér. Eftir nokkra mánuði klára ég mitt fyrsta háskólanám. Stefnan er auðvitað tekin á áframhaldandi nám og hafa miklar vangaveltur verið uppi um hvað. Ég er auðvitað í sömu stöðu og aðrir að nám erlendis er draumur sem gæti frestast og þá hafa jákvæðar hugsanir reynst best. Þegar dyr lokast opnast gluggi - þó manni verði kalt við það á ekki að stökkva til og loka honum strax.

Ég fæ sting í hjartað þegar ég sé fólk í kringum mig hætta að brosa og finna ekki lengur fyrir gleðinni í lífinu. Þó það sé ekki endilega fólk sem er mér skylt eða ég þekki mikið. Á stundum sem þessum fer maður að hugsa um það sem maður má vera þakklátur fyrir. Mér finnst ég mjög heppin með fólkið í kringum mig. Skólafélagar mínir sem ég hitti nánast á hverjum degi sem eru hver öðrum yndislegri (plús það að við erum í awesome hljómsveit!!). Þessir krakkar verða aldrei fúlir eða leiðir og eru endalaust að hlæja og finna upp á einhverju fyndnu til að gera sem er svo yndislegt.

Áðan var ég svo að skoða myndir af stúlkum sem voru miklir vinir mínir þegar ég var í grunnskóla en einhvernvegin hefur það samband fjarað út.. Ég kalla þessar stúlkur þó enn vini mína og ég hlakka rosalega til að hitta einhverjar þegar ég fer vestur um jólin því þær gáfu mér mikið þá og gera enn með dugnaði og elju. Það er sama hve langur tími líður á milli þess er maður heyrir í þeim það er alltaf jafn gaman og þær verða aldrei sárar eða fúlar yfir því hvað ég er ótrúlega léleg við að taka upp símann og hringja.

Rebbastelpurnar sem ég var að vinna með og eru með mér í saumaklúbb eru líka svo frábærar stúlkur. Þær eru allar eldri en ég en ég finn samt aldrei fyrir því. Þær hafa allar svo rosalega hreint hjarta og eru ótrúlega duglegar í öllu sem þær taka sér fyrir hendur. Þetta eru topp stúlkur. Núna í sumar gifti ein sig og það var eitt flottasta brúðkaup sem ég hef farið í og önnur var að eignast tvíbura núna á mánudaginn og þær eru allar svo hamingjusamar og frábærar.

Fólkið sem ég er að vinna með er frábært. Við erum nýbúin að vera að æfa fyrir hæfileikakeppni og það var svo ótrúlega skemmtilegt (þó keppnin hafi ekkert gengið neitt rosa vel). Þau eru hver öðru yndislegri og það er sama hvern maður talar við allir eru svo jákvæðir og hressir og koma vel fram. Mér finnst ég rosalega heppin með vinnufélaga og hef eignast góða vini í þessum stað.

Svo auðvitað á ég frábæra nána vini sem fara óumbeðnir út í búð og kaupa eitthvað fyrir mann þegar maður er heima með einhverja ógjéðspest ;) eða eru alltaf tilbúnir að grínast með allt og dæma mann ekki hversu fáránlega sem maður hagar sér.

Ég verð nú líka að senda fjölskyldunni minni smá knús því þau eru best (og fjölskyldunni hans Arnars!!). Hann á nú líka frábæra vini sem eru einnig mínir vinir og eru ótrúlega hressir og alltaf gaman að vera með.

Allt þetta fólk á það sameiginlegt að standa saman og vera jákvætt í öllu því sem er í gangi í þjóðfélaginu. Ég þakka guði fyrir að hafa gefið mér þetta fólk og leyft mér að kynnast því og umgangast.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Genial brief and this enter helped me alot in my college assignement. Say thank you you seeking your information.