þriðjudagur, júlí 11, 2006

Afmælisveisla..

Í dag, 11.07.06, hefði amma mínu hún Ásta átt 80 ára afmæli en hún lést 29 september árið 2000. Í tilefni dagsins heimsótti ég leiðið hennar og Afa Gissurar (17.07.31 - 26.07.93) og hélt aðeins upp á afmælið hennar, ég komst ekki í 70 ára afmælið en ég get þó sagt að ég hafi farið í 80 ára afmælið. Ég snyrti einnig rósarunnan sem hún sjálf hafði gróðursett á leiðið hans afa (og hennar núna) áður en hún var jörðuð og kvekti á útikerti. Þegar ég var þarna hjá henni fann ég svo sterkt fyrir henni og hvað ég sakna hennar mikið. Hún var yndisleg. Ég ætla í tilefni af 80 ára afmæli ömmu minnar að setja inn mynd af henni og minningargreinina um hana sem ég gerði eftir að hún lést.



Nú er komið að kveðjustund. Elskuleg amma mín, nafna og besti vinur hefur kvatt þennan heim. Fyrsta tímabil ævi minnar átti ég heima í ömmuhúsi í Hjallabrekku og allar stundir síðan hef ég litið á þann stað sem mitt annað heimili. Amma leit nefnilega á okkur barnabörnin sem börnin sín og öll hennar umhyggja bar því vitni. Ég sótti alltaf mikið í að vera í návist hennar enda var hún mjög umburðarlynd við okkur og sama var þótt hún hefði hugðarefnum að sinna, alltaf dröslaðist hún með mig.

Þeir voru ófáir framsóknarfundirnir sem ég fór með henni ömmu því alltaf var pláss fyrir mig í hennar lífi. Amma var kennari og ég fékk oft notið leiðsagnar hennar. Stundum fékk ég að fara með henni í kennslu í Breiðholtsskóla og oft aðstoðaði amma mig við dönskuna, sem hún kunni svo vel. Hún kenndi mér að prjóna og hekla þegar við sátum einar og nutum samvistanna. Einnig kenndi hún mér að rækta því hún var alltaf að sá og gróðursetja. Hérna heima á Hanhóli rækta ég grenitré sem ég sáði með ömmu í yndislega garðinum hennar í Hjallabrekku. Amma var ekki aðeins umburðarlynd heldur var hún skapgóð og fjörug og hún var aldrei skoðanalaus. Hún hafði alltaf hugmyndir um allt og það gerði hana að svo áhugaverðri persónu. Kannski var það þessi áhugi hennar á öllu sem mér líkaði svo vel og þrek hennar og þrautseigja, sem allir fundu sem umgengust hana. Ég lít á það sem forréttindi mín og gæfu að hafa átt Ástu Hannesdóttur sem ömmu og ástvin. Hennar verður sárt saknað en miningin um einstaka ömmu lifir áfram.

Ásta Björg.


Fyrir þá sem vilja er hér síða með flestum ef ekki öllum minningargreinunum sem voru skrifaðar eftir andlát hennar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

What a great site » » »